Sunday, December 28, 2008

Jamm þá er jólaballið búið og áramót að koma


Búin að vera afskaplega róleg og góð jól bara hingað til. Á aðfangadag fór ég á fætur um átta og sauð grjónagraut, skar upp skinku, brauð og reyktar pylsur. Bar á borð í rólegheitum og á náttfötunum. Vakti svo liðið og við fengum okkur jólamorgunverð við kertaljós og í kósí heitum.

Einkasonurinn fékk tölvuskerm í jólagjöf og þar sem hann var þungur og stór þó hann væri flatur þá fékk hann að opna hann strax um morguninn. Svo veit ég að frumburinn og ljós lífsins eru ekki það stór í sálinni þó þau séu hálf fullorðinn, þá var ég búin að undirbúa morgun jólapakka handa þeim líka. Svo er ég barnaleg þó ég sé fullorðinn svo jólasveinninn keypti handa mér 2 bækur sem ég fékk um morguninn og eiginmaðurinn elskulegur gat ekki dúsað einn pakka laus um morguninn svo hann fékk líka lítinn pakka. Ósköp indælt allt, borða saman í borðstofunni með kertaljós, jólatréð í ljóma í stofunni hjá okkur og allt einhvað svo rólegt og jólalegt.

Svo var deginum tekið með ró. Fór í labbitúr með hundana, lagði mig, borðaði mandarínur og nammi og naut lífsins. Um tvö fóru allir í spariföt og haldið var í jólaboð. Þar spjölluðum við og drukkum glögg. Var boðið uppá sænskt jólahlaðborð, opnuðum jólapakka, spiluðum spil og ýmislegt annað skemmtilegt. Vorum komin heim um tólf þreytt en sæl.

Jóladagur er enginn stór dagur hjá okkur, bara leti, lestur, borðaðir afgangar, farið í labbitúra og einhvað álíka. Annar í jólum enn ómerkilegri og hér í okkar húsi er orðin hefð að fara bara og sækja pizzu í kvöldmatinn. Mér finnst þetta æðislegt. Engin boð, engar steikur og ekkert vesen.

Helgin fór í að hvíla sig enn meira, horfa á sjónvarp, fara í langa labbitúra og í gær fór ég með unglinga stóðið á risa flugeldasýningu til að horfa á og versla flugelda. Akkúrat núna er sunnudags steikin að verða tilbúin og ég vona bara að öllum finnist hún góð svo.

Á morgun er ég svo að vinna og kannski á þriðjudaginn líka, fer eftir hvað ég næ að gera mikið á morgun. Svo er síðasti dagur 2008 bara kominn.

Þar með vil ég bara segja gleðilegt nýtt ár öllsömul!!

Monday, December 22, 2008

Kisa kom mér á lappir í morgun.


Mjálmaði og vildi fara út klukkan 7.10 sem sé klukku tíma seinna en ég þurfti að vakna. Takk kisa mín, ég rétt hafði það af að koma mér í vinnuna á réttum tíma.

Eiginmaðurinn elskulegur gerði einhvað með bakið á sér í gær sem hann hefði betur sleppt og getur varala hreyft sig. Á erfitt með að liggja og þar með sofa, vona að hann skáni fljótlega.

Ég tók alla unglingana mína með mér til Kalmar í gær og náði að finna jóla föt á bæði frumburann og ljós lífsins. Svo nú verða allir gasalega smart bara á jólunum.

Eftir vinnu í dag er ég í fríi til næsta mánudags, þarf sennilega að skreppa aðeins í bæinn á morgun og það ætti að vera sæmilega brjálað fólk þar því nú eru flestir að fá útborgað í dag og á morgun. Sem betur fer þarf ég lítið að versla. Eina jólagjöf eða svo.

Ég býst við að það verði brjálað að gera svo í vinnunni eftir áramót. Eins gott að Moli er að fara að vinna utan heimilis og mun ekki hafa tíma til að hanga með mér á msn á daginn.

Tuesday, December 16, 2008

Jólakötturinn


Ég er í því að strika yfir hluti á jólagústa listanum.

Búin að kaupa jólatré
Búin að baka loftkökur með einkasyninum
Búin að kaupa jólaföt á þann sama
á morgun geri ég sænsku jóla kálbögglana, þurrka af inni í stofu og pakka inn öllum jólagjöfum sem er búið að kaupa.
Og þá er nú ekki mikið eftir að gera áður en ég get hallað undir flatt og haldið jól.

Frumburinn og ljós lífsins fundu sér engin jóla föt en þau lenda ekki í jólakettinum fyrir því. Annað hvort tekst mér að fara aftur með þau og finna á þau einhver dúkkulísu föt eða... já þið munið vonandi eftir jóla nærfötunum. Ef í harðbakka slær redda nærfötin þeim úr klóm kattarins. Og svo hélduð þið að ég væri rugluð að hamast við að kaupa nærföt alltaf á alla fyrri jólin .

HAH djóks on jú !!

Friday, December 12, 2008

Jóla snjór


Það klingir niður þessum indæla snjókarla snjó. Hita stigið um 0 og öll tré dúðuð með snjó. Mjög fallegt og jólalegt, vona að það fari ekki að rigna. Það er ekkert jóló við rigningu!

Bæjar för á miðvikudaginn mislukkaðist með öllu. Sonur minn svaf yfir sig og ég vissi ekki einu sinni að hann var heima. Kom svo úr matarbúðinni rétt uppúr tíu og mætti honum í ganginum. Næsti strætó í bæinn þar sem skólinn er fór ekki fyrr en eftir 12 svo það var ekki um annað að ræða en skutla honum. Og þar með var allt planið mitt komið úr skorðum. Ég sagði liðinu að ég færi ekki í bæinn úr þessu og að við mundum bara fara um helgina í staðin.

Sagt og gert, ég skutlaði drengnum í skólann. Fór og keypti hunda fóður, vaskafat og fötu fyrir eldhús rusl. Verslaði einhvað meira og fór heim að taka til. Tók eldhúsið í gegn og þurrkaði af öllu í ganginum og er þá að verða búin með jóla hreingerninguna. Reyni að taka klósettið í gegn í kvöld og kannski þurrka af inni í kisu herbergi sem er stærsta herbergi hússins. Læt svo Frumburann taka efrihæðina og Einkasoninn taka kjallarann.

Flug gengur allt og ekkert stress í gangi.

Las innsent bréf í blaði um daginn með fyrirsögninni "Hjálp, konan mín gerir mig geðveikann um jólinn" Konan alveg stjörf af stressi, frá miðjum nóvember. Þvær allt og skrúbbar, með augun útstandandi og svita dropa á enni. Öskrandi á karlinn og börnin alveg fram að jólum. Afhverju ætli fólk geri þetta. Hvað er málið með þessi jól??? Meira ruglið!!!

Á morgun fæ ég svo stressið frá öllum í búðunum beint í æð, en sjálf ætla ég bara að njóta þess að vera til og eiga góðan dag með unglingunum.

Tuesday, December 9, 2008

Nú fer að koma að því að...

byrja að spila jólalögin góðu sem Moli sendi mér. Kannski bara í kvöld. Mér miðar áfram með stússið. Búin að kaupa einhvað af jólagjöfum. Næstum því búin að gera allann mat og frysta. Baka svo einhvað um helgina.

Á morgun fer ég með unglingana að kaupa jólaföt og reyni að skreyta húsið með einhverjum jólasveinum. Ég nenni nú samt ekki að stressa mig neitt mikið á þessu öllu.

Ég fékk pakka frá Mola í gær með lakkrís, djúpum og súputeningum. Allir sem þekkja mig skilja þetta innihald vel. Takk Moli minn þú ert Gullmoli!

Thursday, December 4, 2008

Ef þetta er hægt, þó er þetta snilld

"Best væri þó að stofna nokkur hlutafélög. Setjum t.d einhverjjar verðlitlar eignir sem hlutafé í eitt félag. T.d bílskrjóðinn okkar. Þetta hlutafélag væri með eigin kt og nafn t.d Tryggvi mun ekki borga helvítis skíthælar.ehf.

Setjum síðan ALLAR SKULDIRNAR okkar á þetta hlutafélag og hættum að borga. Látum skuldirnar falla á þetta félag og látum félagið verða gjaldþrota. Skuldirnar eru samt áfram til í kerfinu en eingöngu á kt. Tryggi mun ekki borga helvítis skíthælar.ehf. Ef fyrirtækið myndi byrja aftur starfsemi þá mun allt falla á það. Sem mun ekki gerast.
Við einstaklingarnir sem áttum skuldirnar erum laus við þær."

Fann þetta í commenti á bloggi sem ég les daglega og ef þetta er hægt þá er þetta algjör snilld. Get ekki tjáð mig um hvort þetta virki eða hvernig en held að það sé vel þess virði að skoða málið aðeins!

Monday, December 1, 2008

Uss hvað þetta er búin að vera mikil leti helgi.

Ég hef sama og ekkert gert. Setti ljósaskrautið í gluggana, ryksugaði og þvoði nokkrar vélar. Var búin að ákveða að ég ætlaði að vera þvílíkt dugleg og taka allt í gegn en gerði svo bara ekki neitt.

Skítsama, verð bara að vinna í þessu alla vikuna. Fer fljótlega að vinna í matseðlinum og koma rútínunni á aftur. Frumburin og ljós lífsins eru að fara að koma til okkar, og það er eins gott að vera bara búin að koma sér í stellingar fyrir það.

Búin að kaupa fyrstu jólagjafirnar og þetta smá potast. Náttúrlega ekki hratt víst ég er að drepast úr lete um helgar og kem engu í verk.

Það er gott að vera latur.