Friday, November 28, 2008

Loksins föstudagur


Ég er orðin svo spillt og vön því að hafa það gott og aldrei vinna meir en 2 daga í einu að þessi vika er búin að vera horror. Vegna bíla vandræða á mánudaginn þegar ég ekki komst í vinnuna þá varð það frídagurinn minn og miðvikudagurinn varð að vinnudegi. Ég kann mun betur við að vera í mínu fríi á miðvikudögum. Það fór bara allt í rugl hjá mér.

Enginn matseðill var búin til. Matarinkaupin voru ekki gerð á réttum degi. Húsið er ein rúst og þvotturinn flæðir um allt gólf og ég veit bara ekki hvað. Djö... hef ég það gott venjulega.

Ég var ekki fyrr búin að sleppa frá mér atvinnuleysis áhyggju blogginu þegar mér var sagt að ég fengi meiri vinnu hér eftir áramót. Það er í fínu lagi en sú vinna verður ekki gerð á miðvikudögum. Heldur byrja ég þá tíma fyrr á morgnana og hætti tíma seinna á kvöldin. Miðvikudagar eru heilagir og ég á frí þá!

Thursday, November 27, 2008

Frábært alveg

http://b2.is/?sida=tengill&id=303503

Hér er ekki kreppa en...

þar sem ástandið í heiminum er eins og það er, efnahags og iðnaðar kreppa víðast hvar. Þá er verið að segja upp fullt af fólki hér. Enn sem komið er mest fólki sem vinnur við iðnað að einhverju tæi. Volvo er búið að segja upp fleiri hundrað manns meðal annars. Þegar mikið af fólki er atvinnulaust og fær einungis 80% af laununum sem það er vant að fá, hættir það að sjálfsögðu að versla sér óþarfa. Matvörubúðin hér í bænum er búin að reikna út að nær allir versli fyrir um 20 krónum minna en það gerði fyrir bara nokkrum vikum síðan. Það hljómar ekki sérlega mikið en ef við gerum ráð fyrir að flestir versli kannski fyrir um 200 sænskar krónur í hverri ferð þá er þetta 10% samdráttur.

Það er verið að tala um að lækka virðisauka skattinn tímabundið, hækka barnabæturnar og námstyrkinn til að efla kaupmátt og kannski bjarga fyrirtækjunum frá því að fara á hausinn. Allt þetta kom mér til að hugsa aðeins til allra heima á klakanum fagra sem eru að hugsa um að flýa land og leita sér að vinnu erlendis. Ég held að sá möguleiki sé að verða minni með hverjum deginum. Það er samdráttur allstaðar.

Eignig er ég búin að vera að spá í hvort ég hadi vinnunni og hvort að eiginmaðurinn elskulegur haldi sinni. Hann selur glugga og hurðir og ég sel vatnsleiðslur. Hvoru tveggja er mest notað í ný hús og það er enginn að byggja eitt né neitt. Enda er síminn svo til þagnaður og salan bæði hjá honum og mér hefur minkað til muna.

Enn hefur yfirmaðurinn minn ekki hótað að segja mér upp en hann er annars sí vælandi um að það þýði ekki að vera með fyrirtæki og ekki þéna neitt á því. Hann hefur náttúrlega þénað alveg dopíu af peningum á þessu fyrirtæki það vantar ekki. En hann vælir endalaust við okkur tvö sem vinnum hér að launakostnaðurinn sé alveg geysi hár fyrir svona lítið fyrirtæki og skatturinn er hræðilegur og að annað okkar þurfi sennilega að fara. Fyrsta árið sem ég vann hér var ég alltaf að leita mér að annari vinnu því ég var viss um að það væri alveg um það bila að fara að leggja þetta niður. Svo vandist ég þessu og hætti að hlusta. Þessi maður er alltaf í fyrsta sæti í keppninni yfirmaður ársins.

Ég mundi ekki sakna þess að vinna hér ef mér yrði sagt upp svo mikið er víst. Þætti ákaflega þægilegt að fá aðra vinnu þar sem ég er ekki skömmuð fyrir einhvað sem ég hef ekkert með að gera. Ég væri löngu hætt hér ef ég ætti ekki tvo hunda sem fá að vera með mér í vinnunni í staðinn fyrir að vera alltaf einir heima alla daga. En ég er svo skrýtin einhvað að ég verð að vera með laun.

Æi þetta reddast, það reddast alltaf allt!

Tuesday, November 25, 2008

Nýustu tækni og vísindi

Fyrir alllöngu síðan bilaði dvd spilarinn minn. Það sást rétt glytta í myndina við og við og svo var allt til skiptis kolsvart eða doppótt. Ég henti mér út á alheims vefinn og pantað per samstundis nýann. Þegar hann kom með póstinum 2 dögum seinna var búið að setja snúruna almennilega í sjónvarpið og gamli dvd spilarinn alveg kominn í lag.

Um daginn þegar ég var að hlusta á morðsögu í cd spilaranum mínum í labbinu með hundana fór ég að heyra dulafull auka hljóð og mann greyið sem las upp söguna var farinn að hljóma eins og hann væri farinn að stama alveg rosalega. Auðvitað pantaði ég strax nýann og 2 dögum síðar þegar hann kom var búið að skipta um batterí og sá gamli kominn í gott stand.

Í gærmorgun ætlaði ég í vinnuna svona eins og gengur og gerist á mánudögum. Ég settist hundana í bílinn og settist sjálf inn. Snéri lyklinum, bíllinn fór í gang og drap svo strax á sér. Þessi bíll talar og sagði nú með ákveðni rödd. "Það er búið að læsa vélinni og þú munt ekki geta sett bílinn í gang" Nei hei hugsaði ég með mér. Hvað nú! Ég ákvað að láta eins og ég hefði ekki heyrt þetta og prófaði aftur. Bíllinn fór í gang, drap á sér og þuldi upp "Hlustaðu nú á mig fíflið þitt, ég held að það sé búið að stela mér og þess vegna læsti ég bílnum og þú munt ekki koma honum í gang" Þarna var ég orðin örlítið pirruð, læsti hurðunum, opnaði aftur hvæsti að ég væri ekki að stela bílnum og snéri lyklinum í 3 skipti. Allt eins og áður og enn ein romsan um að hætta að reyna þetta því þetta mundi ekki takast hjá mér.

Ég hringdi í manninn minn og spurði hann hvort hann kannaðist við þessar dittúrur í bílnum. En nei því miður hann hafði ekki hugmynd, enda keyrir hann sjaldan þennann bíl. Ég tók leiðbeiningabókina með mér inn ásamt hundunum. Skoðaði bókina og varð ekki mikið klókari. Hringdi í verkstæðið mitt og þekki þar mann sem hjálpaði mér aðeins. Hann sagði mér að bíllinn minn væri með svo öruggt þjófavarna kerfi að hann yrði að koma eftir vinnu með tölvu til að laga þetta og ná læsingunni af.

Ég muldraði nú einhvað um að ég væri ekki að stela bílnum en sætti mig við örlögin, hringdi í vinnuna og sagði að ég kæmist ekki og tók svo lífinu með ró.

Stráksi kom svo um 6 leitið með tölvuna. Hann settist inn í bílinn og snéri lyklinum. Bíll andskotinn flaug náttúrlega beint í gang, ekkert þjófavarnakerfi, ekkert röfl um að ekki væri hægt að koma bílnum í gang, ekkert. Ég stóð eins og aumingi. Sagði að ég hefði ekki verið að ljúga þessu, bíllinn hefði þver neitað að fara í gang um morguninn.

Sem betur fer var ég í þetta sinn alla vega ekki búin að panta mér nýann bíl. Það hefði verið einum of ég segi ekki meir.

Friday, November 21, 2008

Nærföt og gluggar...

er það sem er búið að gera. Listinn styttist og jólin nálgast. Helgi framundan og halelúja!

Tuesday, November 18, 2008

Jólastuð


Er ekki hver að verða síðastur að byrja með jólastússið? Ég held að það sé alla vega kominn tími á að fara að spá í hvað manni finnst skipta máli að gera fyrir og um jólin.

Hér er minn listi:
Þurrka vel og rækilega af öllu, svovel ofan af sem undir öllu í öllum herbergjum hússins.
Þvo alla glugga svo ég geti sett ljósa dótaríið í þá og kveikt á þeim til að gleðja ungana mína.
Búa til jólahlaðborðs matinn fyrir litlu jólin með mínum foreldrum og bróðir og frysta hann.
Baka þær smákökur sem ungunum mínum langar í.
Kaupa mér jólatré og skreyta það á Þorláksmessukvöld.
Kaupa jólagjafir handa þeim sem mér þykir vænt um og pakka þeim inn.
Senda örfá jólakort, finnst það leiðinlegra með hverju árinu þó.
Elda skinku i ofninum á Þorláksmessukvöld og próf smakka hana sama kvöld.
Kaupa jólanærföt á alla fjölskylduna og láta hvern og einn fara í sína spjör eftir jólabaðið.
Skipta á öllum rúmum á Þorláksmessu.

Svo finnst mér alveg nauðsin að fá skötu á þorláksmessukvöld en það er ekki hægt.

Svo vil ég jólafrið með bókum og konfekti, heitu kakó og góðum bíómyndum og svo er þetta komið.

En þessi listi er töluvert krefjandi þó hann sé frekar stuttur svo ég er að spá í að byrja á morgun bara. Alla vega taka einhvað herbergi í gegn og kannski ráðast á gluggana svo það sé búið.

Haldið þið að það verði jól í ár líka?

Monday, November 17, 2008

Veiðiför til IKEA


Í gærmorgun vakti einkasonurinn mig úr værum blundi sem ég tók mér eftir labbitúr með hunda og morgunmat, með orðunum "Mamma, það er opið til hálf sex í IKEA" Já há hugsaði ég með mér, hvað er nú í gangi. Svo var málum háttað að honum vantaði 2 borðplötur og átta borð lappir undir þær og var búinn að finna þetta í IKEA.

Ég gerði mér strax grein fyrir að ég væri á leiðinni til Kalmar og í IKEA og dullaðist á lappir. Hugsaði mér gott til glóðarinnar undir grillunum á Burger King og sá fyrir mér hamborgara og annað slíkt í hádegismat.

Ég dreif hundana út aftur, labbaði inn í skóg og áfram út á engi með Timmy lausann og Sirocco í langri línu. Þar lét ég þá skokka um og andskotast til að þreyta þá almennilega áður en ég færi í stórbæar ferðina.

Við einkasonurinn lögðum af stað og á leiðinni fundum við bæði hvað við vorum svakalega svöng. Matseðillinn á Burger King var ræddur fram og til baka og plön smíðuð um allt sem við ætluðum að éta. Á staðnum völdum við svo sitthvorn tvöfalda hamborgarann og franskar. Og skiptum svo á milli 1 poka af King Wings og 1 poka af Chili Cheeas, með þessu fengum við okkur svo osta sósu og ég át þetta meira eða minna allt upp til agna. Fékk mér Cola Zero með þessu til að núlla allar kalóríurnar.

Svo var haldið í IKEA og sonurinn breyttist í veiðimann. Hann var með vagninn og æddi af stað. Spurði eftir 200 metra hvað þetta væri eiginlega stór búð. Ég náði að kippa með mér pakka af kertum án þess að það bæri mikið á því. Veiðimaðurinn fann borðplöturnar og lét mig skrifa upp hvar á lagernum þetta værir og æddi svo áfram í átt að lagernum. Spurði hvort það væri virkilega ekki hægt að komast hjá því að labba í gegn um alla búðina til að komast þangað. Ég hrifsaði 2 skurðabretti niður úr hillu á hlaupunum á eftir honum og náði honum aftur við hillu 25 þar sem hann var að taka fram aðra borðplötuna. Ég ákvað að flýta aðeins fyrir honum og fór og fann borð lappirnar á meðan og hitti hann við kassann.

Það tekur góðann veiðimann ca 20 mínotur að drepa 2 borðplötur og 8 lappir í IKEA á sunnudeigi.

Friday, November 14, 2008

Sendu póstkort í dag...


að senda heilt alvöru bréf er náttúrlega ekki leggjandi á nokkurn mann.

Þegar ég var á Íslandi síðast fyrir einu og hálfu ári síðan(held ég) ákvað ég að senda afa mínum póstkort í hverri viku eftir að ég væri farin heim. Það hef ég gert og hann ætti að vera komin með hátt í 80 kort.

Ég ímynda mér að á þennann hátt getir ég glatt hann einhvað örlítið alla vega einu sinni í viku þegar hann sækir póstinn. Síðustu misseri hefur ekki verið gaman fyrir fólk að sækja póstinn sinn, þennann sem kemur í póstkassann. Maður fær bara reikninga og auglýsingar. Aldrei bréf aldrei neitt sem minnir mann á vini og vandamenn.

Póstkortin eru ekki merkileg, ekki fréttnæm eða neitt svoleiðis. Segi honum oft bara að allir séu hressir og stundum hvernig veðrið er. Hugsanlega einhverjar smá fréttir og alltaf knús og teikna nokkur hjörtu. Ég held honum þyki vænt um að fá þau samt.

Ef þú átt einhvern að sem þú getur ekki hitt oft og sérstaklega ef sá/sú sama ekki er í e-póst bransanum sendu þeim þá kort við og við. Það eru forréttindi að geta glatt einhvern með svoleiðis lítilræði.

Tuesday, November 11, 2008

Aldrei ró

Kannski á ekki að vera ró, hvað veit ég. Ró leysið er þó farið að fara verulega í taugarnar á mér og ég vil ekki meir. Endalaust helvítis rugl.

Frekar sorglegt atriði í lífinu er að ég á bara einn BL disk eftir, gerir ekki svo mikið til kannski. Ég byrja bara aftur á seríu eitt eða fer að ráða krossgátur út í eitt.

Sirocco fer í sprautu á morgun alveg eins og hin litlu börnin. Vona að hann verði góður, hann var það síðast. Ég er farin að loka stákana inni í svefnherbergi við og við og sækja Ronju. Henni finnst það öfga nice. Liggur á teppi í sófanum og lætur klappa sér non stop í hálftíma eða svo. Svo er hún alveg til í að lossna frá mér og strákunum er hleypt aftur út.

Í kvöld er einkasonurinn búin að áhveða að við eigum að borða pítu með buffi. Með ekta íslenskri pítu sósu í boði Mola frá því í sumar. Gott!

Friday, November 7, 2008

Boston Legal time again


Happy times! Ég er háð þessum þáttum. Fékk nýu seríuna í fyrra dag og í gær þegar ég var búin að stússast í matnum og fara í labbitúr með gæjana mína hlammaði ég mér fyrir framan sjónvarpið og horfði á fyrsta diskinn. Alveg dásamlegt. Ég fékk bara að horfa á einn disk fyrir mér því ég vildi ekki vaka hálfa nóttina. Var svo frekar svekt þegar diskurinn var búinn því mig langaði að sjá einn þátt í viðbót en bannaði mér það. Svaf svo vel og rækilega til 4.00 eða þangað til kettinum byrjaði að langa út á lífið.

Engin plön fyrir helgina nema taka til og kanski þvo gluggana. Það er helvítis lýgi, ég ætla að horfa á BL alla helgina bara.

Thursday, November 6, 2008

Per engli var stolið

Ekkert skrítið, fjall myndalegur maður og allt. Eða kannski var hann í kaffi bara þegar ég kom og sótti bílinn ég veit ekki. Skildi eftir handa honum konfekt kassa og nokkra happdrættis miða. Vona að hann vinni rosalega mikið af pening. Og bjóði mér svo út að borða.

Gott að vera komin á sinn eigin bíl alla vega.

Fór svo og keypti mér rosalega mikið af fötum. Eða 5 föt sem er rosalega mikið finnst mér. Fór svo heim að taka til. Það er alltaf svo gaman hjá mér. Bjó svo til rosalega góðar vor rúllur með vondum hrísgrjónum. Unkel Ben er ekki frændi minn, finnst hrísgrjónin hans vond. Ég kemst yfir það, ekki hafa áhyggjur.

Obama? Æðislegt bara. Þó ekki væri nema vegna þess að við erum laus við Palin.
Færeyingar? Who knew?

Tuesday, November 4, 2008

Búin að ná mér eftir helgina

Fór að sofa 22,15 í gær og var tiltölulega hress í morgun þegar ég vaknaði. Fór í sturtu, lagaði fína hárið og skellti framan í mig slatta af litum og kremum. Og er náttúrlega ógeðslega sæt núna. Frekar rólegt í vinnunni í dag og allt í góðu.

Frí á morgun og sennilega get ég farið og sótt geðveika bílinn til Per Åka engils. Það er fínt því ég er hrifnari af mínum klikkaða bíl en af gamla bíl eiginmannsins elskulega sem er traktor. Eða sjálfskiptur Volvo af eldri módeli sem er í raun sami hlutur.

Mér leiðist bílar......

Monday, November 3, 2008

Þrjú hjól undir bílnum...

og áfram skröltir hann þó.

Eftir klippingu og öfgafullar strípur á föstudaginn lagði ég af stað til Landskrona í gæsa veislu hjá mömmu og pabba. Alvöru gæsa veislu sem gengur út á að borða einmitt gæs með tilheyrandi meðlæti.

Við héldum fyrst til Växjö. Tveir hundar, einkasonurinn, frumburinn og ljós lífsins. Þar keyptum við vetra frakka á einkasoninn sem er alveg afskaplega myndalegur og töff í honum. Það var étið í bílnum, mat keyptan hjá Mc Donalds. Engum tíma eytt í að fara inn að éta því við vorum að flýta okkur.

Þegar við vorum svo komin 50km framhjá Växjö og áttum eftir um 25km að næsta bæ byrjar tónninn í bílnum að breytast allt verulega. Ég hægði á mér og hætti við að taka fram úr vörubílnum sem var á undan mér og segji við unga fólkið. "Það getur nú ekki verið að það eigi að heyrast svona hátt í dekkjunum, þó maður sé komin á ný naggla dekk" Þar á eftir heyrðist enn verra hljóð og einhvað mikið var að svo ég hægði hægt og rólega á mér og fór út í kant. Steig út úr bílnum og skoðaði dekkin og viti menn. Vinstra framdekkið var upp í brettinu og sat ekki fast með neinu. Engar rær ekkert. Ég veit ekki mikið um bíla en var frekar viss um að öll 4 dekkin eigi að sitja föst á bílnum og þá helst með stæðilegum róm.

Ég hringdi í manninn minn og hræddi líftúruna úr honum. Hann gat ekki mikið annað gert en nötra af skelfingu enda rétt ókomin til Gautaborgar í bíl með öðru fólki á leið að vinna á heimilissýningu. Þar sem hann gat náttúrlega ekki hjálpað mér þá hringdi ég í pabba og náuði með því að hræða móðir mína og hann almennilega. Ég fékk þá ráðið að hringja í veg hjálpina og sagðist svo muna láta vita af mér seinna.

Ég er þá sem sé stödd í miðju engu með 3 krakka og 2 hunda 25km frá öllu og er að spá í hvort ég eigi að fara að grenja. Eftir litla umhugsun ákvað ég að gera það ekki og skipti yfir í auto pilot mod. Þegar ég er að fara að hringja sé ég útundan mér að bíll stoppar fyrir framan mig og ungur maður kemur út úr bílnum. Þar var engill að nafni Daniel á ferð. Daniel spurði hvort við værum svo heppin að ég væri með tjakk í bílnum. Svona veit ég ekki en minnti að ég hefði séð einhvað tæki undir auka dekkinu einhvertíman og ég sótti það tæki og sagði aumingjalega "ég er með svona en ég veit ekki hvað þetta er"

Daniel var ánægður með tækið og tjakkaði bílinn upp, skoðaði og setti dekkið þar sem það á að vera, tók eina ró/skrúfu úr hverju af hinum dekkjunum og festi dekkið. Svo sagði hann mér að keyra á undan honum rólega og að við mundum svo tékka á þessu aftur eftir 20km eða svo. Ég byrjaði að keyra öfur hægt og heyrði skruðninga mikla og eitt klonk. Klonkið var bremsu einhvað sem datt af.

Þetta þýddi að ég var ekki með bremsur nema handbremsu og nú var ekki um annað að ræða en að reyna að komast þessa 25km að næsta bæ og finna verkstæði og hugsanlega bílaleigu bíl. Engillinn Daniel keyrði á eftir mér í 50km hraða alla leið að verkstæðinu í Älmhult sem var náttúrlega lokað þar sem klukkan var að verða hálf sjö. Engillinn sá samt einhvern þar inni og bankaði og talaði þar við annann engil sem heitir Per Åke og var þarna staddur að hjálpa vini sínum með hans bíl.

Bílaleigan var líka lokuð en þar sem hann kenndi í brjóst um mig hringdi hann í manninn sem sér um þetta og reddaði þessu einhvern veginn með því að fara sjálfur að ná í bíl fyrir mig. Daniel minn yfirgaf mig ekki fyrr en Per var búin að lofa að ég fengi bíl og að það yrði allt í lagi með okkur. Ég vissi ekki að það væri til svona fólk! Og svo er ég svo mikið fífl að ég veit ekki neitt meira um Daniel en þetta og get ekki haft samband við hann og þakkað honum betur fyrir að hjálpa mér svona mikið. En ég fer með konfekt kassa til Per þegar ég sækji lagaða bílinn minn í vikunni.

Restina af helginni var ég svo að dillast á 300 þúsund króna splunku nýum bíl og ekki minst unglingarnir voru hamingjusöm yfir því. Restin af helgini var salla fín, gæsin góð og heim ferðin róleg.