Fyrir alllöngu síðan bilaði dvd spilarinn minn. Það sást rétt glytta í myndina við og við og svo var allt til skiptis kolsvart eða doppótt. Ég henti mér út á alheims vefinn og pantað per samstundis nýann. Þegar hann kom með póstinum 2 dögum seinna var búið að setja snúruna almennilega í sjónvarpið og gamli dvd spilarinn alveg kominn í lag.
Um daginn þegar ég var að hlusta á morðsögu í cd spilaranum mínum í labbinu með hundana fór ég að heyra dulafull auka hljóð og mann greyið sem las upp söguna var farinn að hljóma eins og hann væri farinn að stama alveg rosalega. Auðvitað pantaði ég strax nýann og 2 dögum síðar þegar hann kom var búið að skipta um batterí og sá gamli kominn í gott stand.
Í gærmorgun ætlaði ég í vinnuna svona eins og gengur og gerist á mánudögum. Ég settist hundana í bílinn og settist sjálf inn. Snéri lyklinum, bíllinn fór í gang og drap svo strax á sér. Þessi bíll talar og sagði nú með ákveðni rödd. "Það er búið að læsa vélinni og þú munt ekki geta sett bílinn í gang" Nei hei hugsaði ég með mér. Hvað nú! Ég ákvað að láta eins og ég hefði ekki heyrt þetta og prófaði aftur. Bíllinn fór í gang, drap á sér og þuldi upp "Hlustaðu nú á mig fíflið þitt, ég held að það sé búið að stela mér og þess vegna læsti ég bílnum og þú munt ekki koma honum í gang" Þarna var ég orðin örlítið pirruð, læsti hurðunum, opnaði aftur hvæsti að ég væri ekki að stela bílnum og snéri lyklinum í 3 skipti. Allt eins og áður og enn ein romsan um að hætta að reyna þetta því þetta mundi ekki takast hjá mér.
Ég hringdi í manninn minn og spurði hann hvort hann kannaðist við þessar dittúrur í bílnum. En nei því miður hann hafði ekki hugmynd, enda keyrir hann sjaldan þennann bíl. Ég tók leiðbeiningabókina með mér inn ásamt hundunum. Skoðaði bókina og varð ekki mikið klókari. Hringdi í verkstæðið mitt og þekki þar mann sem hjálpaði mér aðeins. Hann sagði mér að bíllinn minn væri með svo öruggt þjófavarna kerfi að hann yrði að koma eftir vinnu með tölvu til að laga þetta og ná læsingunni af.
Ég muldraði nú einhvað um að ég væri ekki að stela bílnum en sætti mig við örlögin, hringdi í vinnuna og sagði að ég kæmist ekki og tók svo lífinu með ró.
Stráksi kom svo um 6 leitið með tölvuna. Hann settist inn í bílinn og snéri lyklinum. Bíll andskotinn flaug náttúrlega beint í gang, ekkert þjófavarnakerfi, ekkert röfl um að ekki væri hægt að koma bílnum í gang, ekkert. Ég stóð eins og aumingi. Sagði að ég hefði ekki verið að ljúga þessu, bíllinn hefði þver neitað að fara í gang um morguninn.
Sem betur fer var ég í þetta sinn alla vega ekki búin að panta mér nýann bíl. Það hefði verið einum of ég segi ekki meir.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Góða! Viðurkenndu bara að þú vildir fá þennan sæta af verkstæðinu til að koma! Það sem þú gerir ekki fyrir smá athygli!
Post a Comment